Ágætu foreldrar og nemendur Grunnskóla Snæfellsbæjar.
Eins og ykkur er kunnugt var starf við skólann metið á vorönn 2015 með ytra mati. Matið unnu matsmenn á vegum Námsmatsstofnunar. Matið er fyrst og fremst til að styðja skóla við að auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum. Tilgangur matsins er einnig að afla upplýsinga um skólastarf, árangur þess og þróun fyrir fræðsluyfirvöld, starfsfólk skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemendur. Matið er til að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla.
Til að sjá hvernig nám nemenda er og hversu vel skólinn stendur að því var aflað fjölbreyttra gagna. Stuðst var við ýmis gögn um skólastarfið, talað var við hópa nemenda, foreldra, kennara, annars starfsfólks, skólastjóra og skólaráð. Vettvangsathuganir voru í kennslustundum. Niðurstöður matsins eru settar fram í fjórum köflum sem fjalla um stjórnun, nám og kennslu, innra mat og að ósk skóla og sveitarfélags var fjórði þáttur nám nemenda með sérþarfir. Hér á eftir er stutt samantekt á niðurstöðum þar sem getið er um styrkleika og tækifæri til umbóta sem fram komu við matið.
Stjórnun
Skólastarf Grunnskóla Snæfellsbæjar og stjórnun skólans tekur mið af skólastefnu sveitarfélagsins. Í skólanámskrá Grunnskóla Snæfellsbæjar sem birt er á heimasíðu er að finna stefnukort skólans sem byggt er á hugmyndafræði um stefnumiðað árangursmat. Grunngildi skólans birtast í starfi hans. Skólastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar leggur fyrst og fremst áherslu á dreifstýringu. Skólinn starfar á þremur starfsstöðvum sem allar fá að halda sínum einkennum og einnig að móta sitt starf út frá hefðum og menningu viðkomandi svæðis. Mikið er lagt upp úr samstarfi og samvinnu allra í skólanum. Menntun og velferð allra nemenda eru leiðarljós í skólastarfinu og stjórnendur brýna fyrir kennurum, starfsfólki og nemendum að ná góðum árangri. Vinna þarf að uppsetningu skólanámskrár og starfsáætlunar í samræmi við fyrirmæli í aðalnámskrá grunnskóla og tryggja að allir hagsmunaaðilar komi að þeirri vinnu. Kjósa þarf fulltrúa nemenda í skólaráð til tveggja ára í senn og virkja þá til vinnu í skólaráði. Huga þarf að því að markvissar upplýsingar berist frá öllum kennurum til foreldra um námslega stöðu nemenda í gegnum Mentor. Vinna þarf að alhliða forvarnaráætlun og móttökuáætlunum fyrir nýja nemendur og nemendur með sérstakar þarfir.
Nám og kennsla
Lögð er áhersla á skóla án aðgreiningar þar sem leitast er við að koma til móts við hæfileika og getu hvers og eins. Samskipti í skólasamfélaginu er jákvæð. Fagmennska og sérfræðiþekking endurspeglast í störfum kennara og skipulagi. Nemendur eru áhugasamir um nám sitt og markvisst er fylgst með námi og framförum allra nemenda. Átthagafræðiverkefni, sem er öðrum til fyrirmyndar, gefur kost á samþættingu hinna ýmsu námsgreina og eflir mjög samstarf við nærsamfélagið. Námsvísar eru greinargóðir og vel kynntir foreldrum. Þá þarf að birta á heimasíðu og nýta til að kynna nemendum markmið náms og til að setja sér markmið í námi. Efla þarf samræður og skoðanaskipti í kennslu og þjálfa nemendur í samstarfi. Æskilegt er að auka virka þátttöku nemenda við að velja sér viðfangsefni miðað við áhuga þeirra og hæfileika á öllum aldursstigum.
Innra mat
Í skólanámskrá Grunnskóla Snæfellsbæjar er fjallað um þær leiðir sem skólinn notar til að meta innra starf, bæði árangur þess og gæði. Innra mat skólans byggir á hugmyndafræði um stefnumiðað árangursmat (Balanced Scorecard). Grunnþættir í menntun, markmið og áhersluþættir grunnskólalaga og skólastefna Snæfellsbæjar endurspeglast í stefnukorti Grunnskóla Snæfellsbæjar. Niðurstöður innra mats eru settar fram í töflu og þar koma fram viðmið um þann árangur sem stefnt er að. Áætlun um matsþætti innra mats, ásamt viðmiðum fyrir skólaárið 2014-15, er sett fram í töflu. Mikilvægt er að skipa matshóp þar sem allir hagsmunaaðilar skólans eigi sinn fulltrúa og birta upplýsingar um áherslur og vinnu matshóps á heimasíðu skólans. Gera þarf umbótaáætlun fyrir hvert starfsár, tilgreina ábyrðaraðilar hvers þáttar og tímasetja lok umbóta. Vinna þarf matsáætlun fyrir næstu þrjú til fimm skólaár og gefa árlega út matsskýrslu um helstu niðurstöður innra mats og birta á heimasíðu.
Nám nemenda með sérþarfir
Skipulag stuðnings við einstaka nemendur og hópa fer fram með ýmsu móti. Þar á meðal eru svokölluð Verkefnaver og Námsver sem styðja við fjölbreyttar þarfir nemenda, gefa kost á smærri hópum og auka fjölbreytni í kennsluháttum. Fagmenntaðir aðilar bera ábyrgð á áætlunum um stuðning í námi og foreldrar taka þátt í gerð einstaklingsnámskráa. Greiningargögn fylgja nemendum á milli skólastiga og unnið er eftir verklagsreglum um meðferð mála sem berast frá foreldrum. Nemendaverndarráð og lausnaleitarteymi er samstarfsvettvangur um einstök málefni nemenda. Gera þarf móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir og birta á heimasíðu og birta einnig skrá yfir skimanir og mat sem skólinn gerir til að finna þá sem þurfa sértæka aðstoð í námi. Leita þarf leiða til að styrkja enn frekar félagslega stöðu nemenda af erlendum uppruna og styðja þá við að efla sitt eigið tungumál. Skilgreina þarf í hvaða tilvikum einstaklingsnámskrá skal gerð.
Í framhaldi þessa mats verður matsskýrsla send skólanum og sveitarstjórn þar sem fram koma nánari niðurstöður ytra matsins. Skýrslan verður aðgengileg á heimasíðu ráðuneytis og Námsmatsstofnunar. Skóli og sveitarstjórn setja í framhaldi matsins fram áætlun um þær umbætur sem lagðar eru til og ráðuneyti fylgist síðan með að þeim sé framfylgt.
Með bestu kveðju,
Hanna Hjartardóttir og Unnar Þór Böðvarsson
Námsmatsstofnun