Verðlaun til Grunnskóla Snæfellsbæjar
Sameinuðu þjóðirnar hafa valið þann 21. mars ár hvert sem alþjóðadag jökla og helguðu árið 2025 jöklum á hverfanda hveli. Markmiðið er að auka áhuga fólks og þekkingu á jöklum og aðgerðum til að sporna við bráðnun þeirra sem hefur verið alvarleg á síðustu áratugum.
Í tilefni af þessum fyrsta degi jökla efndi félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi til samkeppni meðal barna og ungmenna á aldrinum 10-20 ára þar sem óskað var eftir verkum sem varpa ljósi á mikilvægi og eðli jökla, fegurð þeirra og hverfulleika.
Nemendur í 5. og 6. bekk Lýsudeildar Grunnskóla Snæfellsbæjar tóku þátt í samkeppninni með myndbands- og ljóðaverkefni um jökla, undir leiðsögn kennara síns Silju Sigurðardóttur, og urðu þess heiðurs aðnjótandi að verkefnið varð meðal þeirra sem valin voru til verðlauna, en það vakti sérstaka athygli dómnefndar fyrir frumleika, dýpt og sköpunargleði.
Verðlaunaafhendingin fór fram föstudaginn 21. mars í Veröld, húsi Vigdísar, og það voru glaðir og stoltir nemendur sem veittu þar viðtöku hrósi, gjafabréfi í jöklaferð og fróðlegum og skemmtilegum bókum um jökla. Þá sátu þeir viðburðinn allan og hlýddu á jökla- og loftslagserindi leikra sem lærðra.
Verkefnin sem fengu viðurkenningu fara á sýningu Náttúruminjasafns Íslands á 2. hæð í Perlunni en sýningin er hluti af Barnamenningarhátíð 2025 og verður opnuð þann 6. apríl nk.
Á meðfylgjandi myndum má sjá nemendur taka á móti verðlaunum ásamt kennara sínum, Silju Sigurðardóttur, og stilla sér upp með Guðna Th. Jóhannessyni sem hélt erindi á viðburðinum. Á myndirnar vantar tvo nemendur sem ekki gátu verið viðstaddir.


Comments