top of page

Sumarið er tíminn!

Nú þegar hyllir undir lok skólaársins og ný verkefni taka við hjá unga fólkinu okkar er ágætt að hafa í huga að foreldraábyrgðin fer ekki í sumarfrí. Hlutverk foreldra tekur breytingum í takt við aldur barnanna en ábyrgðin er alltaf fyrir hendi. Flest vitum við og íslenskar rannsóknir hafa sýnt fram á það að stuðningur foreldra getur komið í veg fyrir brotthvarf úr skóla og stutt við nám og velferð ungmennis. En stuðningur foreldra einskorðast ekki við skólann.

Margar ógnanir mæta börnunum okkar á sumrin, á sama tíma og við viljum gjarnan slaka aðeins á taumnum er félagslega taumhaldið frá skólanum ekki til staðar. Eitt er að slaka, annað að sleppa.

Þegar kemur að félags- og skemmtanalífi ungmenna gegna foreldrar lykilhlutverki, bæði sem fyrirmyndir og eftirlitsaðilar. Eftirlitslaus partý barna undir 18 ára er ein af þessum stóru ógnunum sem mæta krökkunum okkar, partý sem fara úr böndunum. Bæjarhátíðir heima eða að heiman eru ekki fyrir eftirlitslaus ungmenni á eigin vegum. Síðustu árin hefur því miður orðið bakslag, bæði hvað varðar utanum hald foreldra og tölur sýna okkur einnig að hvers kyns vímuefnaneysla er að aukast og ofbeldi fer vaxandi meðal ungmenna. Foreldrar hafa oft áhyggjur af áfengisnotkun ungmenna á framhaldsskólaaldri og auknu aðgengi að vímuefnum. Þær áhyggjur eru því miður ekki óþarfar. Ábyrgð foreldra er því mikil og munið að barnið ykkar fæddist með 18 ára ábyrgð. Vert er að minna á að það er lögbrot að versla áfengi handa þeim sem er undir 20 ára. Kæru foreldrar. Ekki vera lögbrjótar!

Það verður aldrei of oft kveðið að foreldrar eru mikivægastir þegar kemur að öllum þáttum velferðar barna. Foreldar þurfa að taka ábyrgð sína á foreldrahlutverkinu alvarlega og vera í góðu sambandi við börnin sín.

Margar greinar og rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að foreldrar séu leiðandi í sínu hlutverki. Leiðandi foreldrar krefjast þroskaðrar hegðunar af börnum sínum. Þeir setja skýr mörk, rökstudd og útskýrð svo unglingurinn skilji hvað er að gerast. Þá er gott að hafa í huga að barn sem elst upp við markaleysi á sjálft erfitt að setja sjálfu sér og öðrum mörk. Leiðandi foreldrar aðlaga sig að auknum þörfum unglinga fyrir frelsi og ábyrgð. Þeir hvetja þá til að skýra út sjónarmið sín og leggja áherslu á að ræða saman þar sem fram koma bæði sjónarmið barna og foreldra, til dæmis þegar reglur eru settar. Reglur eru settar til að verja börnin okkar.

Allir þurfa að upplifa það að þeir séu mikilvægir, að einhverjum þyki vænt um þá og það skipti máli hvernig þeim líður. Mikilvægt er að foreldrar leggi rækt við og séu í góðu samband við börn sín, því það samband virkar sem fyrirmynd fyrir seinni tíma sambönd. Öruggt umhverfi fyrir börn er grunnur til að öðlast trú á sjálfan sig og hæfileika sína.

Gleðilegt sumar.


Forvarnarteymi Snæfellsnes

Lögreglan á Vesturlandi




Commentaires


​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page