Og hvað svo?
Í vikunni héldu skólinn og foreldrafélögin frábæran fund í Klifi þar sem Vanda Sigurgeirsdóttir fjallaði um góð samskipti í víðum skilningi þess orðs og bætt samskipti heimili og skóla, Hún kynnti m.a. Verkfærakistuna sem er námskeið sem starfsfólk er á allt þetta skólaár. Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum verkfæri til að stuðla að bættum bekkjaranda, styrkingu hópa, auka samkennd og samvinnu, bæta félags-, vináttu- og leiðtogafærni og aðferðir til að aðstoða börn í félagslegum vanda. Þannig má vinna gegn einelti og annarri neikvæðri hegðun, ásamt því að bæta líðan og farsæld barnanna í skólanum. Að loknu námskeiðinu hafa þátttakendur öðlast verkfæri til að bera kennsl á og vinna með einstaklinga sem eiga í félagslegum vanda annars vegar og hópa sem glíma við samskiptavanda hins vegar.
Hvað svo?
Vanda sagði frá verkefni sem verið er að vinna í öllum bekkjum og heitir „Best og laga“. Það sem kemur út úr því verkefni er hvað hver bekkur finnst vera þörf að laga hjá sér, það getur t.d. verið talsmátinn og/eða framkoma. Þegar sú vinna er búinn í bekkjunum munu umsjónarkennarar upplýsa foreldra að hverju er stefnt. Með því móti erum við öll að stefna í sömu átt og sterkari erum við sama ef við erum að róa í sömu átt.
Vanda hvatti foreldra til að hittast í bekkjum, t.d. að koma saman og spila og standa fyrir Pálínuboði þar sem allir koma með veitingar á hlaðborð. Með því móti þá kynnist fólk betur sem eykur líkurnar á samstarfi og samtali. Við hvetjum bekkjarfulltrúa til að vera með að minnsta kosti einn viðburð fyrir áramót og annan eftir áramót. Hægt er að panta skólann með því að senda skólastjóra tölvupóst á netfangið hilmara@gsnb.is
Næsti starfsdagur í skólanum er 4. nóvember og er hann tileinkaður vinnu að bættum bekkjaranda og líðan nemenda sem Vanda stýrir.
Við höfum fengið marga jákvæða pósta eftir foreldrafundinn, hér eru nokkur sýnishorn, kærar þakkir fyrir þá – þeir ylja
Frábær fundur í alla staði!
Mjög góður fyrirlestur.
Takk fyrir mig þetta var mjög flottur fyrirlestur
Kærar þakkir
Frábær fundur, ég fékk gæsahúð þegar ég sá hvað margir voru mættir ❤️
Upplýsandi og fræðandi fundur. Sterkust erum við saman
Takk fyrir fundinn hann var mjög upplýsandi, þegar þú hringdir og kynntir þig þá var mín fyrsta hugsun hvern fjandann hefur barnið nú gert af sér. Ég vona að við fáum fleiri fundi, þekkingin hjálpar á fleiri vinnustöðum en bara skólanum.
Vel gert að halda þennan fund – mjög þarfur
Þetta var flottur fundur og vonandi skapar Þetta líka umræðu heima við hjá fólki um að það passi sig hvað rætt er um við eldhúsborðið svo allskonar baktal berist ekki með börnum í skólann
Frábær fundur mjög þarfur
Sterkari erum við sama ef við erum að róa í sömu átt og allir leggjast á eitt.
Comments