top of page

Harry Potter þema í fimmta bekk

Fimmti bekkur í Grunnskóla Snæfellsbæjar ákvað að breyta til eina vikuna og settu upp Harry Potter þemaviku. Það var nánast allt tekið niður og skreytingar settar upp í staðinn. Það var búin til þessi ævintýraveröld með ljósum, kertum, leikmunum úr Harry Potter og það var dregið fyrir skápa og hillur með grænum flauels dúkum. Margir nemendur komu í búningum, með Harry Potter dót að heiman, settu ör á ennið á sér og tóku fullan þátt í þemavikunni.


“Venjulegar” bækur og verkefni voru sett til hliðar og þematengd verkefni sett inn í staðinn. Verkefnin voru ansi fjölbreytt og má þar nefna bæði stafrænt og áþreifanlegt Breakout þar sem nemendur þurftu að leysa ýmsar þrautir til þess að ná settu markmiði. Nemendur bjuggu til vasaljós og var haldin Sphero orrusta þar sem þeir bjuggu til sína eigin fígúru úr plastglasi, grillpinnum, blöðru, pappadiskum og skreyttu. Þá settu þeir Sphero kúlu undir plastglasið og markmiðið var að sprengja blöðruna hjá hinum. Auk þess horfðum við á Harry Potter bíómynd yfir vikuna og nemendur unnu ýmis fjölbreytt verkefni út frá henni; kvikmyndagagnrýni, persónulýsingar, hönnun á dreka, skrifuðu kvikmyndaatriði og fleira.


Nemendum var skipt upp í fjórar heimavistir eins og í Hogwartsskóla og voru ákveðin stig í boði fyrir verkefnin sem þeir unnu. Stigin voru tekin saman eftir hvern dag og var mikil eftirvænting hjá nemendum að vita hvað vistin þeirra fékk mörg stig. Vikan endaði á útskrift úr Hogwartsskóla þar sem nemendur fengu viðurkenningarskjöl og verðlaunaafhending fyrir stigakeppnina.


Ávinningur af svona verkefni er mikill og má helst nefna gleði nemenda og kennara. Nemendur fóru heim eftir daginn og fannst þeir ekki vera að læra neitt en áttuðu sig ekki á því að þeir lærðu fullt. Þemavikan þétti nemendahópinn saman og þeir sem voru saman í heimavist hvöttu hvert annað áfram og það myndaðist mikið hópefli. Nemendur og kennarar voru mjög ánægðir eftir vikuna og eru strax farin að hugsa um næsta þema.














​Nýjar fréttir
Eldri fréttir

Grunnskóli Snæfellsbæjar

Ennisbraut 11 | 355 Snæfellsbæ

Sími: 4339900 

gsnb(hja)gsnb.is

Opnunartímar:

Hellissandur kl. 8:00 - 16:00

Ólafsvík kl. 8:00 - 16:00

bottom of page