top of page

Skólastarf á tímum Covid faraldurs

Heilt yfir hefur skólastarfið í Grunnskóla Snæfellsbæjar gengið mjög vel. Sunnandeildin á Lýsu hefur ekki þurft að breyta miklu í sínu skipulagi. Þess er gætt að leikskóla- og grunnskólabörn matist ekki á sama tíma og umgengni þar á milli er takmörkuð eins og hægt er. Norðan Heiðar slepptum við öllum frímínútum, sundi, innanhússíþróttum, list- og verkgreinum. Við þurftum að fjölga ferðum skólabíls að morgni og í lok dags, tryggja að aldrei væru fleiri en 20 nemendur í bílnum hverju sinni og ekki mátti „krossa“ á milli bekkja. Fljótlega lokuðum við mötuneytinu, nemendur fengu tvo nestistíma þess í stað þar sem boðið var upp ávexti í þeim fyrri en ávexti og samlokur í þeim síðari. Við þjöppuðum stundatöflum nemenda saman og skiptum starfsmannahópnum upp í 16 teymi sem hvert hefur sína kaffistofu. Tveir til þrír starfsmenn koma að kennslu hvers hóps/bekkjar, tryggt er að enginn starfsmaður fari á milli starfstöðva og sem minnst á milli bekkja. Við héldum útivist eða hreyfingu í öllum bekkjum og nemendur fara einu sinni á dag í hreyfingu. Lengdri viðveru nemenda (Skólabæ) var fljótlega lokað. Skólatími nemenda er um það bil fjórar klukkustundir á dag. Við höfum ekki þurft að grípa til fjarnáms en höfum áhuga á prófa slíkt skipulag hjá unglingunum næstu daga til að æfa þá og okkur í slíkum aðstæðum. Við getum þá gripið til fjarnáms næst þegar ekki verður hægt að keyra á milli starfstöðva eða skóli felldur niður sökum veðurs.

Nemendur eru eru mjög duglegir að virða þær ströngu umgengisreglur sem gilda í skólanum. Okkur fannst ánægjulegt að heyra það að margir nemendur voru tilbúnir til að vera í skólanum í páskafríinu, leið vel við þessar aðstæður þar sem skólastarfið var öðruvísi, nutu félagsskapar hver af öðrum og það var vel haldið utan um þá.

Það er ekki komið á hreint hvað þessi slökun sem gerður á reglum 4. maí þýðir í raun. Við fáum misvísandi skilaboð en það skýrist vonandi sem fyrst.

Við viljum þakka öllum þeim sem mynda skólasamfélagið okkar fyrir að standa sig jafnvel og þeir eru að gera. Starfsfólki fyrir að vera faglegt, jákvætt og lausnamiðað, nemendum fyrir að vera virkir, jákvæðir og fara eftir þeim ströngu reglum sem þeir þurfa að hlíta, foreldrum fyrir að vera jákvæðir og styðjandi, að lokum bæjaryfirvöldum fyrir að vera styðjandi og hvetjandi.

Höldum út, förum eftir reglum og sýnum samfélagslega ábyrgð. Virðum beiðni Samhæfingarmiðstöðvar almannavarna, en þar kemur fram að þeir „Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla“.

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir

Grunnskóli Snæfellsbæjar

Ennisbraut 11 | 355 Snæfellsbæ

Sími: 4339900 

gsnb(hja)gsnb.is

Opnunartímar:

Hellissandur kl. 8:00 - 16:00

Ólafsvík kl. 8:00 - 16:00

bottom of page