Nám og kennsla
Í 2. grein grunnskólalaga segir að hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Þar segir einnig að grunnskóli skuli stuðla að víðsýni hjá nemendum og skólastarfið skuli leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Einnig er það hlutverk grunnskólans að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara námi. Í Grunnskóla Snæfellsbæjar er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér ákveðna hæfni, vinnubrögð og samskipti sem gerir þá færari um að takast á við þau verkefni sem bíða þeirra í framtíðinni.
Til að nemandi nái góðum árangri í námi þarf námsumhverfið að vera hvetjandi, hann upplifi væntingar, læri vönduð vinnubrögð og kennslan taki mið af þörfum hans og markmiðum í námi.
Teymisvinna
Í Grunnskóla Snæfellsbæjar er lögð áhersla á teymisvinnu í íslensku og stærðfræði til að auka gæði kennslunnar. Markmið teymisvinnu er að auka samvinnu milli kennara, nýta styrkleika hvers og eins og miðla þekkingu og reynslu til að mæta þörfum nemenda og stuðla að bættum námsárangri. Teymisvinna er bæði innan árganga og milli árganga.
Námsumhverfi
Til að nemendur nái að uppfylla hæfniviðmið Aðalnámskrár grunnskóla þarf námsumhverfið að vera hvetjandi og sveigjanlegt og kennsluaðferðir fjölbreytilegar. Góður skólabragur eflir samskiptahæfni nemenda og þroska þeirra til virðingar og umburðarlyndis. Margir þættir hafa áhrif á námsumhverfi nemenda eins og skólabragur, umhverfi, aðbúnaður og námsgögn.
Fimman (The Daily 5)
Læsisfimman er skipulag utan um kennsluhætti og aðferðir í læsi og íslensku. Fimman byggir á lýðræðislegu umhverfi þar sem nemendur velja sjálfir verkefni, hvar og hvernig þeir vinna. Þá er mikil áhersla lögð á sjálfstæði, sjálfsaga og úthald nemenda. Læsisfimman skiptist í fimm þætti; sjálfstæður lestur, félagalestur, hlustun, ritun og orðavinna. Fimman er kennsluskipulag sem er notað í 1.-7. bekk.
Hringekjur
Hringekjur eru hluti af starfi yngri bekkja og er uppbrot á hefðbundnu bekkjarstarfi og vinnuhópum.
Í hringekjum er lögð áhersla á blandaða aldurshópa og nemendum skipt í hópa. Þema einkennir starfið og á u.þ.b. 4 -6 vikna fresti er skipt um þemu en viðfangsefnin eru fjölbreytileg.
Þemaverkefni á unglingastigi
Á unglingstigi er þemavinna unnin í lotum sem skipt er niður á skólaárið og tímabil hverrar lotu er 1-3 vikur í senn. Þar er áhersla á samþættingu ákveðinna námsgreina og ýmist unnið innan eða þvert á árganga. Viðfangsefnin eru fjölbreytileg og lögð er áhersla á skapandi og lausnamiðað nám þar sem nemendur velja sér leiðir að settu markmiði. Nemendur læra vönduð vinnubrögð þar sem ábyrgð, úthald, metnaður, samvinna og sjálfstæði eru höfð að leiðarljósi.
Útvarp GSnb
Árið 2016 hófust útsendingar hjá útvarpi GSnb. Allir bekkir skólans vinna að þáttagerð þar sem fjölbreytt viðfangsefni eru tekin fyrir og áhersla lögð á vandað málfar og góða framsögn. Verkefnið hefur gefist vel og skapar tengsl við nærsamfélagið. Þetta er orðinn árlegur viðburður í skólanum í desember.
Upplýsingatækni í skólastarfi
Grunnskóli Snæfellsbæjar leggur áherslu á að nemendur öðlist hæfni til að nýta sér fjölbreyttar leiðir í námi með nýtingu miðla og upplýsinga í námsumhverfi 21. aldarinnar. Þannig stuðlar upplýsingatæknin í skólastarfi í tengslum við allar námsgreinar skólans að fjölbreyttum kennsluháttum á öllum skólastigum. Upplýsingatæknin gefur möguleika á samþættingu námsgreina þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna að skapandi verkefnum með því að nýta sér tæknina.
Nemendur í 5. - 10. bekk hafa aðgang að kerfi sem kallast G Suite sem býður upp á námsumhverfið, Google Classroom sem gefur nemendum tækifæri á að vinna hvar sem er og velja um tæki sem henta. Kerfið heldur vel utan um verkefnavinnu nemenda auk þess sem nemendur geta unnið verkefni í samvinnu við aðra nemendur. Þá geta kennarar gefið nemendum leiðsagnarmat á sama tíma og nemandi er að vinna verkefni.
Náms- og starfsfræðsla
Náms- og starfsráðgjöf í Grunnskóla Snæfellsbæjar er hluti af þjónustu Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga. Náms- og starfsráðgjafi hefur viðveru ef þörf krefur. Boðið er upp á persónulega ráðgjöf, m.a. þar sem nemendur fá aðstoð vegna kvíða, reiði og annarra persónulegra málefna sem hafa áhrif á líðan og nám. Einnig sér náms-og starfsráðgjafi um tengslakannanir, hópefli og framhaldsskólakynningar fyrir útskriftarnemendur auk hefðbundinna verkefna sem snúa beint að ráðgjöf vegna náms, s.s. námstækni og prófkvíða. Náms- og starfsráðgjafi er tengiliður við stóru upplestrarkeppnina í 7. bekk.